Fara í efni

Lýðræði og velferðarsamfélag

Réttindi og frelsi í lýðræðisríki

 • Ísland er lýðveldi og lýðræðisríki. Lýðveldið var stofnað 17. júní 1944. ​
 • Lýðveldi þýðir að fólkið ræður. Það kýs fulltrúa á Alþingi og fulltrúa í sveitarstjórnir. Þessir fulltrúar starfa fyrir ólíka stjórnmálaflokka. ​
 • Kosningar til Alþingis eru á fjögurra ára fresti. ​
 • Forseti landsins er líka kosinn af íbúum landsins, til fjögurra ára í senn. ​
 • Í kosningum ræður meirihlutinn. ​
 • Það er þó áríðandi að meirihlutinn taki tillit til vilja minnihluta þegar stefna er mörkuð, t.d. á Alþingi og í sveitarstjórnum. ​
 • 18 ára og eldri hafa kosningarétt á Íslandi. ​
 • Einstaklingur verður að hafa íslenskan ríkisborgararétt til að kjósa í Alþingiskosningum.​
 • Til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum verða erlendir ríkisborgarar að hafa átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag.​
 • Á Íslandi er þrískipting valds: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.​

 

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna

 • Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður í San Francisco 26. júní árið 1945. Þetta var fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem sérstaklega stefndi að því að viðhalda og varðveita mannréttindi allra í heiminum. ​
 • Íslendingar fengu aðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1946.​
 • Mannréttindayfirlýsing SÞ var undirrituð 10. desember 1948. ​
 • Þar segir m.a.: Allir eru bornir frjálsir og jafnir. Allir hafa sömu réttindi óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, stjórnmálaskoðun eða öðrum skoðunum​

Úr mannréttindayfirlýsingu SÞ

 • Allir er bornir frjálsir og jafnir. Allir hafa sömu réttindi óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, stjórnmálaskoðun eða öðrum skoðunum.​
 • Allir hafa rétt til lífs, frelsis og öryggis. Enginn getur átt aðra manneskju, selt hana eða keypt. ​
 • Hver maður hefur rétt til mannsæmandi lífskjara. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. ​
 • Allir hafa skyldur og réttindi gagnvart samfélaginu og meðborgurum sínum. ​
 • Enginn hefur rétt til að handtaka mann eða svipta frelsi án gildrar ástæðu. Allir eiga rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum dómstólum. ​
 • Allir hafa rétt til ríkisfangs og að tilheyra sínu landi. ​

Mannréttindadómstóll Evrópu

 • Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu. Ísland undirritaði samninginn árið 1950 og var hann lögfestur á Íslandi árið 1994. ​
 • Sáttmálinn fjallar m.a. um rétt til lífs og frelsis, til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, bann við pyndingum, friðhelgi einkalífs og tjáningar-, trú- og félagafrelsi.​
 • Fjölmörg sértæk mannréttindi eru varin í alþjóðasamningum sem og í íslenskum lögum og í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.​

Hatursræða

 • Hatursræða er orð, myndir eða önnur tjáning sem breiðir út eða hvetur til haturs gegn einstaklingi sem tilheyrir tilteknum hópi einstaklinga. ​
 • Hatursræða er særandi og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga og hópa. ​
 • Samkvæmt íslenskum hegningarlögum getur opinber hatursræða gegn einstaklingum eða hópum vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar varðað sektum eða fangelsi, allt að 2 árum. ​

Fordómar

 • Fordómar eru þeir dómar sem fólk fellir þegar aðeins ein hlið máls hefur verið skoðuð eða þegar eitthvað er dæmt fyrir fram. ​
 • Fordómar skapast oft af vanþekkingu og hræðslu við nýja og framandi hluti sem fólk sér í fjölmiðlum eða í samfélaginu. ​
 • Bæði þeir sem búa fyrir í samfélagi og þeir sem flytja í nýtt samfélag geta upplifað og fundið fyrir fordómum. ​
 • Þátttaka og sýnileiki ólíkra einstaklinga á sem flestum sviðum lífsins eykur víðsýni og dregur úr fordómum. ​
 • Það er hollt fyrir alla að velta því fyrir sér hvort þeir búi yfir neikvæðum fordómum þegar þeir sjá og upplifa eitthvað nýtt og framandi. Þá er gott að kafa dýpra í málið, leita sér upplýsinga og spyrja spurninga. ​

Myndband

Má bæta efnið á síðunni?