Fara í efni

Jafnrétti og jöfn tækifæri​

  • Ákvæði um jafnrétti og sömu tækifæri eru mikilvægur þáttur í lögum á Íslandi. ​
  • Mikilvægt gildi í íslensku samfélagi er jafnrétti fyrir alla. Þetta þýðir að óháð kyni, aldri, hæfni, menningarlegum bakgrunni, uppruna, fötlun, trú, kynvitund og kynhneigð eru allir jafnir. ​
  • Kynjajafnrétti hefur fleygt fram síðustu áratugi. Konum á vinnumarkaði hefur fjölgað til muna og eru núna jafnmargar körlum. ​
  • Enn eru þó ákveðnar stéttir dæmigerðar kvennastéttir en stjórnvöld hvetja bæði karla og konur til að mennta sig í öllum greinum atvinnulífsins.​
  • Samtök kvenna af erlendum uppruna starfa á Íslandi. www.womeniniceland.is
  • Jafnréttisstofa hefur gefið út bækling á nokkrum tungumálum um mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur á Íslandi.

https://www.jafnretti.is/is/samfelag-og-vinnumarkadur/rettur-thinn/rettur-thinn-mikilvaegar-upplysingar-fyrir-innflytjendur-a-islandi

Heimilislífið

  • Heimilislíf á Íslandi er svipað og í flestum öðrum samfélögum: Fólk fer til vinnu eða í skóla, kemur heim, eldar kvöldmat og sinnir heimanámi og heimilisstörfum og slakar á. ​
  • Þátttaka í frístundastarfi er algeng á Íslandi, bæði hjá börnum og fullorðnum. Margar konur og karlar stunda líkamsrækt fyrir eða eftir vinnu. Margir taka líka þátt í einhverju félagsstarfi, kórum eða sjálfboðaliðastarfi. ​
  • Hjón með börn skipta því gjarnan jafnt á milli sín tímanum sem þau eiga fyrir sín áhugamál eða líkamsrækt og hverjir eiga að keyra og sækja börnin í þeirra frístundastarf. ​

Endurnýting

  • Á Íslandi nýtir fólk gjarnan sölusíður á facebook eða á netinu til að kaupa og selja notaðar vörur, til dæmis föt, húsgögn, leikföng, tæki og bíla. ​
  • Nytjamarkaðir eru einnig víða sem selja föt, húsbúnað og húsgögn á mjög litlu verði. Góði hirðirinn er stór nytjamarkaður,en allur ágóði af sölu þar rennur til góðgerðamála. ​
  • Rauði krossinn rekur fataverslanir með notuð föt. ​
  • Kolaportið er opið um helgar en það er stór markaður í miðbæ Reykjavíkur með mat og bæði gamla og nýja hluti til sölu. Hægt er að panta bás til að selja þar. www.kolaportid.is
  • Sorpa rekur endurvinnslustöðvar víða á höfuðborgarsvæðinu. Þar er hægt að fara með allt í endurvinnslu eða örugga eyðingu. www.sorpa.is

Afþreying

  • Á heimasíðu Rauða krossins er listi yfir ókeypis og ódýra afþreyingu sem er í boði á stórhöfuðborgarsvæðinu. ​
  • Þar er fullt af hugmyndum að afþreyingu, bæði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og börn.
  • Bókasöfn eru um allt land. Þar er hægt að fá bækur á ýmsum tungumálum, sérstaklega barnabækur. Bókasöfn eru með notalegum leskrókum og góðri aðstöðu fyrir börn að leika sér og skoða bækur.​
  • Sum bókasöfn eru einnig með tölvur, þrívíddarprentara, saumavélar og margt fleira til afnota fyrir fólk. ​
  • Fjölbreyttir menningartengdir viðburðir er m.a. það sem er boðið uppá á bókasöfnum. www.borgarbokasafn.is
  • Sundlaugar eru fyrir bæði kynin. Laugar eru út um allt land og margar á höfuðborgarsvæðinu. Sund er ódýrt og góð heilsubót. ​
  • Á Íslandi eru heitir pottar og gufubað í sundlaugunum og rennibrautir og leiktæki fyrir börn. Það að fara í sund er ríkur þáttur í menningu landsins. ​
  • Sundkennsla er skyldufag í grunnskólum á Íslandi og stundum eru í boði sundnámskeið fyrir fullorðna hjá sundlaugum. ​
  • Sérstakir karla- og kvennaklefar eru í sundi. Allir fara í sturtu án baðfata fyrir sundferð og á Íslandi þykir það ekkert mál. ​
  • Börn mega fara ein í sund árið sem þau eru 10 ára en einungis ef þau eru synd. Börn eru alltaf á ábyrgð forráðamanna í sundi.
  • Leiksvæði eru víða um borgina og í öllum bæjum. Á opnum svæðum má einnig oft finna leiktæki og sums staðar má finna útigrill. ​
  • Gönguferðir eru sívinsælar og margar skemmtilegar gönguleiðir og útivistarsvæði eru um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu er vinsælt að fara í Laugardalinn, Elliðaárdalinn, Heiðmörk og í Öskjuhlíð. Það er nauðsynlegt að vera í skóm sem henta fyrir göngur og klæða sig nógu vel. ​
  • Hjólreiðaferðir eru skemmtilegar á sumrin og víða eru hjólreiðastígar í Reykjavík. ​
  • Í Nauthólsvík í Reykjavík er manngerð strönd og heitu vatni hleypt í sjóinn. Á góðviðrisdögum er gaman að fara í strandferð þar. Sumir stunda reyndar sjósund allan ársins hring. ​
  • Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er í Laugardal í Reykjavík. Þar má sjá íslensk húsdýr og nokkur villt dýr. Í garðinum eru einnig margs konar leiktæki fyrir börn.
  • Á sumrin fara margir í ferðalag um landið eða í sumarbústað. Það er hægt að leigja sumarbústaði hjá stéttarfélögum. ​
  • Bæjarhátíðir eru víða um land á sumrin sem er skemmtilegt að heimsækja. Á sumardaginn fyrsta eru skemmtanir í hverfum og bæjum fyrir börn. Á þjóðhátíðardegi Íslendinga (17. júní) eru stór hátíðarhöld í öllum sveitarfélögum. Í ágúst í Reykjavík eru einnig Menningarnótt og Gleðiganga hinsegin fólks stórar hátíðir. ​
  • Samtök um móðurmálskennslu fyrir börn bjóða upp á móðurmálskennslu fyrir börn á mörgum tungumálum. ​
  • Sunnudagaskóli fyrir börn er starfræktur á sunnudagsmorgnum í flestum kirkjum. Mörg trúfélög eru með barnastarf á sínum snærum. ​
  • Á veturna fara margir á skíði. Það er mjög vinsælt hjá börnum að fara á snjóþotur og sleða og renna sér niður brekkur. ​
  • Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið eru stærstu atvinnuleikhús landsins. Þau bjóða upp á fjölbreyttar leiksýningar, líka fyrir börn. Á sumrin eru starfræktir leikhópar fyrir börn sem fara um landið. ​
  • Harpa er tónlistar- og ráðstefnuhús þjóðarinnar og stendur við hafnarbakkann í Reykjavík. Fjölbreyttir tónleikar og óperusýningar eru haldnar þar. ​
  • Bíó eru mörg á landinu. Bíómyndir fyrir börn eru talsettar á íslensku en aðrar myndir með íslenskum texta. ​
  • Á Íslandi eru ótal söfn með fjölbreyttum sýningum. ​
  • Margir fara líka í verslunarmiðstöðvar eða í bæinn til að skoða sig um. Að fara í heimsóknir til ættingja og vina er einnig sígilt. ​
  • Ísbíltúrar eru skemmtileg hefð en þá er farið í bíltúr og stoppað og keyptur ís á leiðinni – líka á veturna. Kósýkvöld eru kvöld þar sem fjölskyldan er saman og horfir saman á skemmtilega mynd eða spilar og borðar eitthvað gott. ​
  • Facebook er mikið notað á Íslandi til að auglýsa vörur og viðburði. Skemmtilegir viðburðir fyrir börn og fullorðna eru undir „events“. ​
  • Einnig eru margir hópar á Fb sem auglýsa vörur og þjónustu ódýrt eða ókeypis. Hverfi bæja og bæjarfélög eru einnig með facebook hópa þar sem fólk getur spurt og spjallað um ýmislegt sem við kemur þeirra hverfi eða bæ.

 Gott að vita – margt er rafrænt

  • Á Íslandi eru upplýsingar um smátt og stórt á netinu. ​
  • Öll fyrirtæki hafa heimasíðu þar sem má finna upplýsingar um opnunartíma, þjónustu og verðskrá. ​
  • Það er líka hægt að kaupa miða á tónleika, bíó og á leiksýningar í gegnum netið og fá rafrænan aðgöngumiða. ​
Má bæta efnið á síðunni?