Fara í efni

Sambúð

 • Þegar fólk býr saman sem hjón en er ekki gift er það í sambúð. ​
 • Það er hægt að skrá sig í sambúð hjá Þjóðskrá Íslands. ​
 • Fólk getur þá t.d. nýtt skattkort maka síns til skattafrádráttar en nýtur þó alls ekki sömu réttinda og gift fólk. ​

Hjónaskilnaður

 • Hjón geta saman eða sitt í hvoru lagi sótt um skilnað að borði og sæng (og búa þá á sitthvorum staðnum). Hægt er að sækja um lögskilnað sex mánuðum eftir skilnað að borði og sæng. Það er gert hjá embætti Sýslumanns. ​
 • Við skilnað eða sambúðarslit hjóna þarf að gera samning hjá sýslumanni um forsjá barna, skráningu lögheimilis og meðlagsgreiðslur. Sýslumaður boðar foreldra til fundar eða til rafrænnar fyrirtöku. ​
 • Þegar hjón skilja og eiga börn saman eru foreldrarnir yfirleitt með jafnt forræði yfir börnum sínum. ​
 • Við hjónaskilnað fellur dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar úr gildi. Sækja þarf um nýtt dvalarleyfi á öðrum forsendum ef vilji er til að búa áfram á Íslandi. www.utl.is

Meðlagsgreiðslur

 • Foreldri sem barn á lögheimili hjá getur krafist meðlags frá hinu foreldrinu til að standa straum af framfærslu barnsins.​
 • Einfalt meðlag frá 1. júli 2023 er 43.700 kr. á mánuði. ​
 • Meðlag er réttur barnsins og skal nota til að fæða, klæða og sjá barninu fyrir húsnæði.
 • Fæðist barn utan sambúðar eða hjónabands geta foreldrar gert með sér meðlagssamning.​
 • Foreldrar mega sjálfir sjá um innheimtu og greiðslu meðlags.​
 • Tryggingastofnun ríkisins getur einnig séð um milligöngu greiðslna til lögheimilisforeldris sé þess óskað, sótt um á www.tr.is
 • Upplýsingar á www.island.is/medlag

Ofbeldi í samböndum

 • Ofbeldi er bannað með lögum á Íslandi. Þar á meðal innan fjölskyldna, í ástarsamböndum, hjá sambúðarfólki og hjónum. ​
 • Hvað telst t.d. ofbeldi samkvæmt lögunum?​
  • Að misnota aðra manneskju líkamlega, kynferðislega, andlega og/eða fjárhagslega.​
  • Að valda annarri manneskju ótta eða meiðslum.​
  • Að einangra aðra manneskju eða brjóta hana niður andlega.​
  • Að flengja börn eða slá þau utan undir.​
 • Ofbeldi í nánum samböndum (heimilisofbeldi) á sér stað þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur, vinur eða umönnunaraðili. ​

 Ofbeldi og hjálp

 • Lögreglan á Íslandi tekur jafnt heimilisofbeldi sem annað ofbeldi alvarlega. Alltaf er hægt að hringja í síma 112. ​
 • Á www.112.is er hægt að taka þátt í netspjalli í rauntíma við neyðarvörð og fá hjálp og upplýsingar. ​
 • 1717 er hjálparsími Rauða krossins og netspjall á www.1717.is Þar er veittur sálfélagslegur stuðningur og leiðbeint um úrræði. ​
 • Ofbeldi er það þegar einhver gerir eitthvað sem meiðir þig eða lætur þér líða illa. Ofbeldi á sér stað óháð kyni, aldri, kynhneigð eða hverju öðru. Ofbeldi er til dæmis andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi og stafrænt ofbeldi.​
 • Kvennaráðgjöf er starfrækt. Þar er hægt að fá ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur og karla. Það þarf ekki að gefa upp persónuupplýsingar. www.kvennaradgjofin.is
 • Í Reykjavík er rekið Kvennaathvarf fyrir konur og börn sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna ofbeldis. Þar er hægt að dvelja og fá ráðgjöf og stuðning. www.kvennaathvarf.is
 • Bjarkarhlíð í Reykjavík og Bjarmahlíð á Akureyri eru miðstöðvar fyrir þolendur líkamlegs, andlegs eða kynferðislegs ofbeldis. Þær eru opnar fyrir bæði konur og karla og veita ráðgjöf, fræðslu og stuðning. www.bjarkarhlid.is og www.bjarmahlid.is
 • Stígamót eru ráðgjafar- stuðningsmiðstöð fyrir bæði konur og karla frá 18 ára aldri sem hafa verið beitt hverskonar kynferðisofbeldi. www.stigamot.is
 • Heimilisfriður er þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samskiptum og meðferðarmiðstöð fyrir karlmenn og konur sem beita ofbeldi. www.heimilisfridur.is

 Áhrif ofbeldis

 • Að verða fyrir ofbeldi hefur langvarandi slæmar afleiðingar í för með sér fyrir þolandann. ​
 • Það hefur slæm áhrif á börn að verða vitni að ofbeldi á heimili sínu, t.d. milli foreldra sinna. Áhrifin geta verið langvinn og m.a. valdið börnum og unglingum óöryggi, kvíða og hræðslu. ​
 • Það þykir óeðlilegt og rangt á Íslandi að beita ofbeldi innan fjölskyldunnar. Oft er slíkt þó feimnismál en til mikils að vinna fyrir alla, hvort sem þeir eru gerendur, þolendur eða börn, að búa ekki við slíkt og leita sér hjálpar. ​
Má bæta efnið á síðunni?